Frodleikur-um-steinsteypu

Fróðleikur um steinsteypu

Góð steinsteypa verður að hafa næga þjálni, styrk og endingu. Ending steinsteypu sem framleidd er úr góðum hráefnum og verður fyrir veðrun er fyrst og fremst háð vatns-/sementshlutfalli, loftinnihaldi og steypuhulu á járnum.

Þjálni

Þjálni steypu er oftast metin með því að fylla 30 cm háa keilu af steypu og mæla sigið (sigmálið) á steypunni þegar keilan er dregin upp af henni. Hækkun sigmáls ef flot er ekki notað þýðir minni styrk og minni endingu en meiri þjálni.

Steypustyrkur

Skilgreindur sem 28 daga þrýstistyrkleiki sívalninga sem geymdir eru í vatni í 28 daga við 20°C. Steypa sem á að standast 25 MPa styrk er kölluð C-25.

Vatns-/sementshlutfall

V/s-talan er hlutfall þyngdar vatns og sements í nýblandaðri steypu og hefur lykilþýðingu fyrir styrk, endingu og þéttleika hennar. Almennt þýðir lægra v/s-hlutfall betri steypu.

Loftinnihald

Loftblendi myndar litlar bólur í steypunni (þvermál < 0,5 mm). Bólurnar hindra að steypan skemmist þegar vatn frýs í holrúmum hennar. Það skiptir miklu að loftbólurnar séu hæfilega litlar og jafndreifðar. Til að steypan sé frostþolin þarf loftinnihaldið að vera meira en 5 % af rúmmáli steypunnar.

Steypuhula á járnum

Þykkt steypu utan á járnum skiptir miklu máli, þar sem járn sem liggja of nálægt yfirborði steypunnar geta ryðgað og myndað sprungur í henni.

Hvað er steinsteypa? 
Sement og vatn.

Steypa harðnar vegna efnahvarfa sem verða þegar vatni og sementi er blandað saman. Sementið er í raun lím sem bindur fylliefnin saman. Helstu sementsgerðir hérlendis eru portlandsement og hraðsement.

Fylliefni

Sandur og möl eru fylliefni steypu. Án þeirra yrði steypan veik og myndi springa. Að jafnaði eru notaðar nokkrar mismunandi gerðir af sandi og möl í hverja steyputegund.

Íblöndunarefni

Þeim er bætt í steypuna til að breyta eiginleikum hennar. Mest notuðu efnin eru loftblendi og flot. Flot er sérvirkt þjálniefni sem almennt er blandað í steypuna á byggingarstað og eykur þjálni hennar tímabundið án þess að hækka v/s-tölu hennar.