Á morgunfundi Innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru kynntar fyrirhugaðar breytingar á kafla um steypu í byggingarreglugerð. Faghópur, í samstarfi við hagaðila í byggingariðnaðnum og HMS, hefur unnið að tillögunum sem fela í sér breytingar á sveigjanlegri og markmiðsbundnum ákvæðum sem opna fyrir grænar lausnir og minni losun gróðurhúsalofttegunda.
Einar Einarsson, framkvæmdastjóri gæða og umhverfissviðs Hornsteins, móðurfélags BM Vallár, er í faghópnum enda leggja fyrirtækin mikla áherslu á jákvæðari umhverfisáhrif steinsteypunnar án þess þó að slaka á kröfum um öryggi og gæði. Meðal þess sem horft er til eru nýjar samsetningar í steypuíblöndun, mismunandi blöndur fyrir ólíkar aðstæður og endurvinnsla steinefna. Þessar breytingar koma einnig til með að vega á móti hækkandi heimsmarkaðsverði á sementi ásamt því að lækka kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði.
“Ný reglugerð kemur til með að marka tímamót þar sem umhverfisáhrif steypunnar eru tekin fastari tökum. Aukinn sveigjanleiki sem reglugerðin gefur ásamt áherslum á umhverfisáhrif steypunnar mun skipta vegferð okkar miklu máli varðandi stefnu okkar á núllið.” segir Þorsteinn Víglundssons, forstjóri Hornsteins. En hann ásamt Arnhildi Pálmadóttur, s.ap arkitektum, Gylfa Gíslasyni, Jáverki, Sigríði Ósk Bjarnadóttur, Háskóla Íslands, og Sigurði Hannessyni, Samtökum Iðnaðarins, voru þátttakendur í pallborðsumræðum. Einnig ávarpaði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, fundargesti og héldu þau Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, hjá HMS, og Guðbjartur Jón Einarsson, hjá Framkvæmdasýslu Ríkiseigna erindi.