Beint í efni

16.06.2023

Hvaða sorptunnuskýli hentar húsnæðinu?

Með innleiðingu á nýju flokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum fá mörg sérbýli, fjölbýlishús og fyrirtæki fleiri sorptunnur við húsnæðið. Sorptunnuskýli gegna mikilvægu hlutverki í þessari innleiðingu þar sem skýlin ramma sorptunnurnar inn á snyrtilegan hátt og veita þeim öruggt skjól fyrir veðri og vindum.

Margir eru að velta fyrir sér lausnum varðandi sorptunnuskýli við húsin sín og velta fyrir sér hvort hægt sé að stækka eða bæta við núverandi sorptunnuskýli sem eru við heimilið. Við tókum saman nokkra punkta og góð ráð fyrir fólk sem er í þessum pælingum, en sumir geta bætt við svokölluðum L- eða U-einingum við núverandi E-einingaskýli sem BM Vallá framleiðir.

Tegundir sorptunnuskýla

BM Vallá framleiðir töluvert úrval af sorptunnuskýlum. E-einingaskýli, sem eru algeng sjón um allt land, og fást í þremur stærðum; fyrir tvær, þrjár eða fjórar sorptunnur. Einnig eru til L- og U-einingar sem bjóða upp á ýmsa möguleika og hægt að tengja við E-einingaskýlin og stækka þannig skýlið sem nemur plássi fyrir eina sorptunnu. Þá eru til boga- og gámaskýli sem ekki er hægt að stækka með viðbótareiningum (nema kaupa heil skýli til viðbótar).

En kíkjum aðeins á lausnir fyrir hvert skýli fyrir sig.

U-einingar

U-einingaskýlin geta rúmað eina sorptunnu og er vinsælt að taka nokkur saman og láta þau snúa í sitt hvora áttina, t.d. fyrir samliggjandi sorptunnusvæði milli húsa. Einnig henta U-einingar vel með L-einingum. Hægt er að fá galvaniseraðan ramma með viðarhurðum og viðarloki (úr furu), á U-einingaskýlin ásamt pumpu til að auðvelda opnun á hurðarloki. U-einingaskýlin má einnig setja með E-einingum og stækka þannig sorptunnuskýlið sem nemur einu tunnuplássi.

U-eining eru fyrir eina sorptunnu.

L-einingar

Líkt og nafnið gefur til kynna er um að ræða L-laga sorptunnuskýli sem er fyrst og fremst hugsað sem stækkunareining fyrir E-eininga skýli eða U-skýli. Hægt er að fá galvaniseraðan ramma með viðarhurðum og viðarloki (úr furu), ásamt pumpu til að auðvelda opnun á hurðarloki. Óþarfi er að festa L-einingar við aðrar einingar, svo framarlega sem undirlagið sé steypt eða hellulagt og frostfrítt. L-einingunni er komið upp þétt við hlið skýlisins með lyftikrana. L-einingar koma bæði fyrir hægri og vinstri hlið, en ef á að nota eininguna sem stækkun fyrir E-einingu mælum við með að hægri hlið sé notuð þar sem hún kemur með innsteyptum götum fyrir pumpu til að lyfta hurðarloki.

L-eining er notuð til stækkunar á E-einingaskýlum.

E-einingar

Tvöfalt skýli – þrefalt skýli eða fjórfalt skýli

E-einingar fást sem tvöfalt skýli, þrefalt skýli eða fjórfalt skýli og er hægt að setja á þau ramma með viðarhurðum og viðarloki (úr furu), og pumpu til að auðvelda opnun á hurðarloki. E-einingaskýli er hægt að stækka sem nemur einu sorptunnuplássi með því að bæta við það einfaldri L-einingu eða U-einingu. Ef L-einingu er bætt við mælum við með að henni sé bætt við hægra megin við E-einingaskýlið, en þá þarf eingöngu að setja upp hurð og hlera í þartilgerð innsteypt göt og bora vinkla í steypuna (á E-einingaskýlinu sem er þegar á staðnum) fyrir hurðarlokið.

Þrefalt E-einingaskýli.

Bogaskýli

Falleg bogadregin tveggja tunnu sorptunnuskýli sem hafa verið til í tugi ára. Gert er ráð fyrir viðarhlerum framan á skýlin, en hægt er að nota þau án hlera. Til að stækka bogaskýlið er hægt að bæta öðru tvöföldu bogaskýli við fyrirliggjandi skýli og auka þannig pláss fyrir sorptunnur úr tveimur í fjórar. Þá er einnig komið kjörið tækifæri til að nota aukapláss í skýlinu til að geyma t.d. útiverkfæri.

Bogaskýli.

Gámaskýli

Gámaskýli eru hentug lausn fyrir fjölbýlishús og vinnustaði. Gámaskýlin koma í tveimur stærðum, annars vegar rúma þau 660 lítra gám og hins vegar 1.100 lítra gám. Lokin á skýlunum festast við gáminn sem gera þau sérlega meðfærileg og þægileg í notkun. Hægt er að fá viðarhurðir og viðarlok á skýlin.

Gámaskýli, fást fyrir 660 L og 1100 L gáma.

Íslensk hönnun og framleiðsla

BM Vallá hefur hannað og framleitt sorptunnuskýli fyrir sorptunnur og gáma um margra ára skeið. Um er að ræða steypt, stílhrein og sterkbyggð skýli, með viðarlokum og hurðum úr furu, fyrir allar helstu gerðir sorptunna. Sorptunnuskýlin sóma sér vel í umhverfinu og eru sett ofan á frostrían jarðveg sem er annað hvort með hellulögðu eða steyptu undirlagi. Mælt er með að setja viðarhurðir og viðarlok (úr furu) á skýlin ásamt pumpu og seglum og eru þau seld sérstaklega. Gert er ráð fyrir hurðum og loki á skýlin og eru rær því innsteyptar í skýlin sem gerir að verkum að auðvelt er að festa bæði hurðarlamir og lok. Hægt er að mála sorptunnuskýlin og/eða bera lit á hurðir og lok að vild.

Pöntun og afhending

Öll sorptunnuskýli eru seld stök og þarf því að kaupa aukalega hurðir, lok, pumpur, segla og festingar. Hægt er að fá alla fylgihlutina hjá BM Vallá. Það er auðvelt að panta sorptunnuskýli í vefversluninni á bmvalla.is en einnig er hægt að heyra í söludeild í síma 412 5050 og fá ráðgjöf.

Lager- og birgðastaða getur sveiflast til og stundum þarf að bíða í nokkra daga, jafnvel vikur, eftir sorptunnuskýli. Öll framleiðsla á steyptum skýlum og smíði á hurðum og lokum fer fram hjá BM Vallá í Reykjavík og er starfsemin gæðavottuð skv.ISO 9001.

Sorptunnuskýlin eru afar þung í flutningum og mælum við því með heimkeyrslu þar sem stilla þarf þau af við húsnæðið með sérstökum krana. Ágætt að hafa í huga að kraninn nær sirka 5 metra beint út frá bílnum og því má ekki vera nein fyrirstaða við vinnuradíusinn. Það þýðir að ekki er mögulegt að hífa skýlið undir lága súð á t.d. bílskúr/húsi, þar sem kraninn býður ekki upp á það.

Gott að hafa í huga

  • Ofangreindar ráðleggingar og lausnir miðast við sorptunnuskýli sem eru hönnuð og framleidd hjá BM Vallá.
  • Kaupa þarf hurðir, lok, pumpur og festingar sér – og fást allir fylgihlutir hjá BM Vallá.
  • Ef það þarf að bora þarf í E-einingu til að festa vinkla fyrir hleralok er mikilvægt að fylgja leiðbeiningum um staðsetningu þeirra – og muna eftir hlífðargleraugum.

Ef þig vantar nánari upplýsingar er velkomið að hafa samband við okkur, annað hvort í síma 412 5050 eða með tölvupósti.

Dagsetning
16.06.2023
Deila