Beint í efni

16.03.2023

Keppt í iðngreinum

Íslandsmót iðn- og verkgreina fer fram í Laugardalshöll dagana 16-18 mars og er keppt í 22 mismunandi faggreinum. Við fögnum þessu mikilvæga framtaki sem er ætlað að kynna og efla iðnmenntun hér á landi ásamt því að hvetja til vitundar og þátttöku í alþjóðlegum mótum af sama toga. Samhliða Íslandsmótinu kynna framhaldsskólarnir fjölbreyttar námsleiðir í iðn- og verkgreinum. Við styðjum stolt við bakið á Íslandsmótinu og viðburðinum, Mín framtíð, sem fer fram samhliða. Meðal keppenda á Íslandsmótinu eru nemendur í múraraiðn sem ætla að hlaða millivegg með íslenskum vikursteini frá BM Vallá. Þá ætla skrúðgarðyrkjunemar að leggja niður hellur og kantsteina á afmarkað vinnusvæði með vörum frá BM Vallá. Keppendurnir koma til með að takast á við krefjandi og raunveruleg verkefni í samkeppni sem reynir á hæfni, fagmennsku og skipulagshæfileika. Dómarar fara yfir verkefnin að keppni lokinni, meta gæðin og velja þá sem skara fram úr í hverri grein. Tilgangur keppninnar er meðal annars að kynna og vekja áhuga grunnskólanema á iðn- og verknámi og þeim fjölmörgu tækifærum sem nám í greinunum hefur upp á að bjóða. Við hvetjum alla til að skella sér í Laugardalshöllina á Mín framtíð og fylgjast með framtíðar iðnaðar- og tæknifólki landsins.

Dagsetning
16.03.2023
Deila