Beint í efni

23.05.2022

Römpum upp Ísland með hellum frá BM Vallá

Það var ánægjuleg stund þegar fulltrúar frá Römpum upp Ísland renndu í hlað til BM Vallár síðastliðinn fimmtudag, 19. maí. Tilgangurinn var að taka á móti hellum og sandi sem verða notuð til að setja upp fyrsta rampinn á landsbyggðinni. Verkefnið miðar að því að setja upp 1.000 rampa um land allt næstu fjögur árin, en nú þegar hafa yfir 100 rampar verið settir upp í Reykjavík.

Fulltrúar frá Römpum upp Ísland mættu á sérmerktum bíl sem verður notaður í verkefnið. Bíllinn er áberandi og sýnilegur í umferðinni og fær hann góðan samastað hjá BM Vallá milli verkefna.

Af sama tilefni var handsalaður samningur um áframhaldandi samstarf BM Vallár og Römpum upp Ísland til næstu fjögurra ára. Það voru þeir Þorleifur Gunnlaugsson og Þorsteinn Víglundsson sem handsöluðu samkomulagið, en það er hluti af samfélagssjóðnum Hjálparhella BM Vallá.


Fyrsti rampurinn vígður í Hveragerði

Mánudaginn 23. maí verður fyrsti rampurinn formlega vígður í Hveragerði, nánar tiltekið við Matkrána. Það er BM Vallá mikil ánægja að leggja framtakinu lið og að vera í hóp öflugra styrktaraðila verkefnisins sem miðar að því að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingastöðum.

Haraldur Þorleifsson er frumkvöðull verkefnisins og með aðkomu fyrirtækja, hins opinberra og annarra samstarfsaðila var stofnaður sjóður sem mun standa straum af kostnaði við gerð rampana fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu.

Dagsetning
23.05.2022
Deila