Beint í efni

05.02.2024

Starfsfólk af erlendum uppruna keppist við að nota Bara Tala

Hjá BM Vallá starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks af erlendum uppruna. Um er að ræða 100 einstaklinga frá 10 mismunandi þjóðernum og gegna þau mikilvægu hlutverki í daglegri starfsemi fyrirtækisins. Starfsfólk sem er með annað móðurmál en íslensku fær stuðning við að læra og efla íslenskukunnáttu sína og nýverið var Bara Tala, stafrænum íslenskukennara, bætt við í verkfærakistuna.

Bara Tala er smáforrit sem nýtir gervigreind til að kenna íslensku, efla orðaforða og hlustunarfærni sem stuðlar að betri skilningi á íslensku í starfi og daglegu lífi. Sérstök áhersla var lögð á að sérsníða íslenskukennsluna að starfsemi BM Vallár og sértæk orð sem tengjast starfinu því hluti af kennslunni.

Allt erlent starfsfólk BM Vallár er komið með aðgang að Bara Tala og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. Um helmingur þeirra hefur nú þegar virkjað aðganginn sinn og nýtt sér kennsluna. Starfsfólkið hefur lokið við um 1946 æfingar í appinu, sem samsvarar 55 klst. af lærdómi.

Eins og Homa Mehr Moxhdehi, gæðaeftirlitsstjóri steypu- og múrefna, segir: „Mér finnst þetta vera frábært app til að bæta íslenskuna þína, sama á hvaða stigi þú ert, þú getur alltaf lært eitthvað, hjálpað til við að sannreyna framburð þinn og lært ný orð á hverjum degi. Takk fyrir að útvega þessa kennslu fyrir okkur.

Fræðslumál og símenntun starfsfólks eru mikilvægur hluti af mannauðsáherslum BM Vallár. Meðal þeirra leiða sem starfsfólki stendur til boða til að efla þekkingu sína og færni er rafræn fræðsla í gegnum Samsteypuna, fræðsluvef fyrirtækisins. Þar er hægt að taka þátt í rafrænum námskeiðum frá Akademias ásamt öðrum sérhæfðum námskeiðum.

Bara Tala er notað hjá BM Vallá
Starfsfólk BM Vallár hefur tekið Bara Tala fagnandi. Á myndinni má sjá þau Adam, Malgorzata og Homa.
Dagsetning
05.02.2024
Deila