Sérsteypur

Steypan frá BM Vallá er sérhönnuð til að þola íslenskt veðurfar og hver hræra lýtur ítrustu gæðastöðlum, enda fyrirtækið með ISO 9001 gæðavottun. Í allri blöndun og ráðgjöf um meðhöndlun er höfuðáhersla lögð á að tryggja langan líftíma mannvirkis, lágmarka viðhaldsþörf og auðvelda niðurlögn steypu. Sérhæfing okkar gerir okkur kleift að bjóða upp á steypu sem hentar öllum tilefnum; jafnt hefðbundna steypu sem ýmsar sérsteypur og ílagnir.

Hjá BM Vallá er samankomin mikil reynsla og þekking í steypugerð og steypuframkvæmdum. Það getur því borgað sig að hafa BM Vallá ehf með í skipulagningunni frá upphafi.  Þú steypir til framtíðar með steypu frá BM Vallá.

Söluráðgjafar ráðleggja þér við val á steypu sem hentar þínu verki.

Hafðu samband

TERRAZZO STEYPA

BM Vallá útbýr sérstakar steypulaganir fyrir slípun. Fylliefni og sement eru sérvalin til að ná fram réttum blæbrigðum í steypuna eftir slípun. Einnig er hægt að bæta litarefnum í steinsteypu ef þess er óskað. Hafðu samband við tæknideild BM Vallá ef þú vilt frekari upplýsingarum Terrazzo sérlaganir.

LITUÐ STEYPA

BM Vallá býður upp á steypu í ýmsum litum, allt eftir því hverjar óskir viðskiptavinarins eru. Algengast er að nota svartan lit en einnig hefur steypa verið framleidd í mörgum öðrum litum. Athugið að litir eru misdýrir. Fyrir nánari upplýsingar skal hafa samband við söludeild.

HVÍT STEYPA

Hvít steypa er samsett úr hvítu sementi og ljósum (hvítum) fylliefnum. Hún er notuð í svokallaðar arkitektasteypur, t.d. í útveggjum. Hægt er að hafa steypuna mishvíta eftir óskum hvers og eins, allt frá snjóhvítri yfir í ljósgráa.

FROSTVARIN STEYPA

Ef notuð er steypa með frostvörn er hægt að steypa í frosti án þess að steypan skemmist. Vörnin byggist á því að vatnið í steypunni frýs ekki fyrr en hitastigið hefur lækkað undir -10 °C. Þessi steypa er sérstaklega nauðsynleg þegar steypa þarf að vetri til í mannvirkishlutum sem ekki er hægt að verja með yfirbreiðslum eða mynda lítinn hita vegna lítils steypumagns, s.s. raufarsteypa milli eininga.

HRAÐÚTÞORNANDI

Útþurrkunartími er umtalsvert styttri en hjá hefðbundinni steinsteypu. Hraðútþornandi steypa hentar sérstaklega vel fyrir plötur þar sem byggingartími er hraður. Þegar notast er við hefðbundna C25 steinsteypu í plötur geta liðið allt að 18 mánuðir þar til hægt er að leggja endanleg gólfefni á. Með notkun hraðútþornandi steypu má stytta þennan tíma um allt að helming, eða niður í 9 mánuði. Hafðu samband við söludeild BM Vallá og kynntu þér þennan möguleika.

SJÓNSTEYPA

Til að auðvelda vinnuna við að losna við loftbólur býður BM Vallá upp á sérstaka steypu. Steypan hjálpar til við að fá loftbólulausa og fallega veggi en aðalatriði er samt sem áður vönduð vinnubrögð á öllum stigum. Mót þurfa að vera með óskemmdu yfirborði, þétt og ósveigjanleg, steypan titruð niður eftir sérstökum reglum og mótaolían þarf að vera sérhönnuð í þessum tilgangi.

SJÁLFÚTLEGGJANDI PLÖTUSTEYPA

Sjálfútleggjandi steypa hentar vel á plötur þar sem leitað er eftir sléttu yfirborði með lágmarksvinnu og án þess að setja ílagnir ofan á á eftir. Steypan hefur meiri samloðun en venjuleg steypa og er því minni hætta á aðgreiningu ef steypan er höfð fljótandi. Hún er mun ódýrari en sjálfútleggjandi veggjasteypan og því hagkvæmur kostur. Hægt er að velja mismunandi styrkleikaflokka en oftast er steypan höfð innanhúss. Þykkt í plötur 5 cm og yfir. Steypan er dælanleg úr venjulegum steypudælum.

AUKIN ÞJÁLNI

BM Vallá býður viðskiptavinum sínum upp á steinsteypu með sérlega mikla þjálni. Aukin þjálni gefur steypunni eiginleika sem eru mitt á milli hefðbundins sigmáls og sjálfútleggjandi steinsteypu. Það hentar vel að hafa aukna þjálni þegar verið er að steypa undir glugga eða aðrar aðstæður sem krefjast sérstaklega mjúkrar steypu. Ólíkt sjálfútleggjandi steypunni þarf og má víbra þessa steypu. Hún er til í öllum styrkleikaflokkum.

TREFJASTEYPA

Olypropylen plasttrefjarnar eru mest notaðar en þær hafa þann tilgang fyrst og fremst að hindra plastískar sprungur en það eru sprungur sem myndast í ferskri steypu stuttu eftir niðurlögn, áður en hún nær styrk. Mestar líkur eru á að sprungurnar komi fram í sterkri steypu í plötum þegar mikil uppgufun verður t.d. í miklum vindi, lágu rakastigi, þegar heitt er í veðri eða þegar mikill hitamunur er milli steypu og umhverfis. Oftast er valið að blanda í steypuna mjög litlu magni eða 0,9 kg/m3. (Sjá nánari lýsingu í grein). Stáltrefjar og burðarþolsplasttrefjar auka seiglu og höggþol steypunnar og hindra að hun detti í sundur þótt hún brotni. Hér á landi eru þessar trefjar mest nýttar sprautusteypu í jarðgöngum en geta í sumum tilfellum komið í stað járna í venjulegri steypu. Íblöndun í venjulega steypu af plasttrefjunum er oftast um 2,5 kg í m3 en í sprautusteypu mun hærri eða 4 til 6 kg/m3.

SJÁLFÚTLEGGJANDI VEGGJASTEYPA

Sjálfútleggjandi steypa er samsett þannig að ekki þarf eða má titra hana. Steypan er ætluð í veggi þar sem erfitt er að koma að titrara eða þar sem steypan þarf að renna langt. Steypan er með meiri fínefni og samloðun en venjuleg steypa og þolir því að vera mjög fljótandi. Steypan er með mestu kornastærð19 mm og hægt er að velja mismunandi styrkleikaflokka og veðrunarflokka eins og lýst er í kafla um hefðbundnar staðlar steypur. Verklýsingar ganga út á að auk þeirra þátta sem þar er lýst, að lýsa því að um sjálfútleggjandi steypu sé að ræða.

LÉTTSTEYPA

Hefðbundin steypa hefur rúmþyngd um 2300 kg/m3. En hægt er að framleiða steinsteypu sem er miklu léttari, t.d. með því að nota vikur í stað hefðbundinna fylliefna. En BM Vallá ehf. framleiðir einnig fleiri gerðir af léttsteypu.

UNDIRVATNSSTEYPA

Þegar steypt er undir vatni þarf að gæta að því að sementsefjan skolist ekki úr og að steypan renni vel út og fylli mótið. Algengast er að dæla steypunni niður í vatn á þann hátt að dælustúturinn sé alltaf ofan í steypunni til að hindra útskolun þegar hún kemur ofan í vatnið.