Húseiningar fyrir græna iðngarða

Grænir iðngarðar - Flói

Á Akranesi er vinna hafin við metnaðarfulla uppbyggingu atvinnusvæðis sem verður hannað með vistvænum hætti. Svæðið er staðsett við rætur Akrafjalls og hefur það verið skilgreint sem grænir iðngarðar.

Akraneskaupstaður og fyrirtækið Merkjaklöpp hafa að undanförnu unnið að skipulagningu og þróun Grænna iðngarða á Akranesi en Folium fasteignafélag hefur séð um uppbyggingu og framkvæmdir á nýja atvinnusvæðinu. Lagt hefur verið upp með að svæðið sé skipulagt með „grænu“ deiliskipulagi og framkvæmda- og rekstraraðilar á svæðinu tileinki sér vistvæna aðferðarfræði. BM Vallá hefur nýverið gengið frá samkomulagi við Folium um samstarf varðandi forsteyptar húseiningar á svæðið, þar sem áherslan er lögð á að nota eins umhverfisvæna steypu og hægt er.

BM Vallá og Folium
Grænir iðngarðar rísa á Akranesi með forsteyptum húseiningum frá BM Vallá.

Samstarfið við BM Vallá fellur vel að okkar markmiðum um Græna iðngarða og uppbyggingu atvinnusvæðis þar sem hugað verður sérstaklega að umhverfismálum, hringrásarhugsun og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Húseiningarnar þeirra eru gæðavottaðar og unnið hefur verið jafnt og þétt að því að lækka kolefnisspor hvers framleidds rúmmetra, án þess þó að slá af neinum gæðakröfum.“  segja Alexander Eiríksson, sölu- og markaðsstjóri og Guðmundur Sveinn Einarsson, framkvæmdastjóri hjá Folium fasteignafélagi.

Uppbygging fer fram í þremur fösum og nú þegar hefur svæðið farið í gegnum aðalskipulag og deiliskipulag. Gert er ráð fyrir því að fyrstu byggingarnar verði teknar í gagnið í lok sumars og hefur BM Vallá afhent fyrstu húseiningarnar á svæðið sem reistar voru í síðustu viku.

Nánari upplýsingar um samstarfsverkefnið og Græna iðngarða á Akranesi má finna á vefnum floi.is

Hægt er að lesa meira um Smellinn húseiningar hjá BM Vallá.