Kolefnishlutlaus steinsteypa frá 2030

 Við höfum sett okkur það metnaðarfulla markmið að öll okkar steypuframleiðsla og starfsemi verði kolefnishlutlaus árið 2030. Það er áskorun án hliðstæðu í heiminum – en nýir tímar kalla á nýjar kröfur. Á næstu misserum munum við ráðast í markvissar aðgerðir í þágu grænni framtíðar þar til markmiðinu er náð. Við ætlum okkur að verða umhverfisvænsti steypuframleiðandi landsins – og þótt víðar væri leitað.


Hvernig ætlum við að fara að því?
Okkar helsti sementsframleiðandi, Norcem AS í Noregi, hefur sett sér sambærilegt markmið – að öll sementsframleiðsla fyrirtækisins verði kolefnishlutlaus árið 2030. Í því felst að ekki verði kolefnislosun við framleiðslu sements hjá fyrirtækinu sé horft til líftíma þess, allt frá framleiðslu, við notkun efnisins til steinsteypgerðir og allt til niðurrifs mannvirkja í lok líftíma þeirra. Gangi þessi áform eftir, eins og allt bendir til, verða Norcem og móðurfyrirtæki þess, Heidelberg Cemant, brautryðjendur á heimsvísu á sínu sviði í umhverfismálum.

Sementshlutinn er um 85% af heildarlosun CO2 í starfsemi BM Vallá. Um 15% eru tilkomin vegna ýmissa annarra þátta eins og efnisframleiðslu, flutninga á steypu o.fl. Með markvissum breytingum á verkferlum og ýmsum mótvægisaðgerðum ætlum við að ná markmiðinu, kolefnishlutleysi árið 2030.

Aðgerðir framundan
Nú þegar höfum við kortlagt aðgerðir sem nema um 60% af takmarkinu og vinnum markvisst að því að finna lausnir á því sem upp á vantar.

Eins og skýringarmyndin sýnir er unnið á fimm mismunandi sviðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og nú þegar eru í notkun nýjar tegundir sements sem valda mun minni losun og eru auk þess hagkvæmari kostir. Til að fylla upp í markmiðið munum við gera ýmsar aðrar ráðstafanir eins og að nota steypu í hringrásarhagkerfi, draga úr notkun sements eftir föngum, þar sem það á við, og að styðja við verkefni á sviði kolefninsbindingar, eins og skógrækt, endurheimt votlendis o.fl.

Umhverfisárangur birtur í samfélagsskýrslu
Í öllu ferlinu munum við gefa út samfélagsskýrslu og sýna hversu miklum árangri við höfum náð hverju sinni á þessari vegferð okkar. Árið 2020 var meðaltalslosun úr starfseminni 312 kgCO2 pr.framleiddan rúmmetra af steypu. Árið 2021 lækkuðum við hlutfallið um rúm 8% eða í 285 kgCO2 pr.framleiddan rúmmetra af steypu. Hægt er að lesa meira um árangur í umhverfismálum í samfélagsskýrslu okkar. 

Sameiginleg ábyrgð allra
Byggingageirinn eins og hann leggur sig stendur frammi fyrir risavöxnum áskorunum til að mæta þeim nýju kröfum sem fylgja minnkun kolefnisfótspors. Þar bera allir ábyrgð, jafnt hönnuðir mannvirkja, arkitektar og verkfræðingar, sem og verktakar og aðrir framkvæmdaaðilar.

Frá fyrstu teikningu til síðustu steypuhræru
Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að reikna kolefnisspor mannvirkja allt frá fyrstu teikningum. Mikilvægt er að huga að kolefnisspori byggingar strax á fyrstu stigum. Við hönnun sé þess gætt að nota réttar steyputegundir miðað við álagsforsendur, líftíma byggingar og kolefnisspor hennar frá vöggu til grafar. Þar er steinsteypan góður kostur enda fá byggingarefni sem tryggja jafn vel langan endingartíma og traust mannvirki.

Með nýjum og umhverfisvænni kostum opnast fjölmörg tækifæri til að feta nýjar slóðir í átt að grænni framtíð.