Nýverið skrifuðu BM Vallá og MótX undir samning um kaup á forsteyptum einingum, steypu og uppsetningu fyrir iðnaðarhús að Straumhellu 6 í Hafnarfirði. Um er að ræða 1630 fm iðnaðarhús sem kemur til með að hýsa iðnaðarstarfsemi, en MótX hefur komið að víðtækri uppbyggingu íbúða- og iðnaðarhverfa á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár.
Með samstarfinu kemur BM Vallá til með að framleiða steyptar húseiningar sem eru hannaðar samkvæmt óskum MótX. Hönnun og útfærsla byggingarinnar er unnin í nánu samstarfi við MótX og er sérstaklega horft til góðrar innivistar, skipulags og hámarksnýtingu rýmisins. Verkfræðihönnun á útveggjum og innveggjum er í höndum BM Vallár sem sér einnig um afhendingu og uppsetningu iðnaðarhurðum og gluggum í húseiningarnar á verkstað.

Skammur byggingartími skiptir máli
Húseiningar BM Vallár bjóða upp á margvíslega möguleika í hönnun, geta mætt flóknum hönnunarlegum forsendum og koma með viðhaldsfrírri klæðningu sem þolir íslenskt veðurfar. Skammur byggingartími er meðal þess ávinnings sem húseiningar hafa umfram hefðbundinn byggingarmáta, en einingahúsin rísa almennt mun hraðar og því auðveldara að halda tíma- og kostnaðaráætlun.
Fyrirtækin hafa starfað saman um langt skeið og því afar ánægjulegt að samstarfið haldi áfram að vaxa og þróast. Síðustu misseri hafa fyrirtækin lagt aukna áherslu á jákvæðari umhverfisáhrif í tengslum við byggingaframkvæmdir t.d. með vali á vistvænni steypu í fyrirliggjandi verkefni. Húseiningarnar fyrir Straumhellu verða með StandardFa sementi sem er umhverfisvænna sement heldur en sambærilegt á markaði.
Gert er ráð fyrir því að húsið verði tekið í notkun á vormánuðum 2023.