UMHVERFISSTEFNA BM VALLÁR

Markmið um kolefnishlutleysi í starfseminni árið 2030 kallar á markvissa vöruþróun og nýsköpun ásamt breytingum á verkferlum og metnaðarfullum mótvægisaðgerðum svo hægt verði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í öllu sem við kemur framleiðslu BM Vallár.

Helsti sementsframleiðandi okkar, Norcem AS í Noregi, hefur sett sér sambærileg markmið um kolefnishlutleysi og hafa nú þegar verið kortlagðar aðgerðir sem nema um 60% af takmarkinu. Í því felst m.a. að bjóða upp á nýjar sementstegundir, kolsýring á steypu, föngun og niðurdæling/binding koldíoxíðs úr framleiðslu á sementi, ásamt bættri orkunýtingu.

Sementshlutinn er um 85-90% af heildarlosun CO2 í starfsemi BM Vallár og er það því forgangsmál að bjóða fram nýjar tegundir steypu sem eru með umhverfisvænna sementi. Nú þegar getur fyrirtækið boðið viðskiptavinum sínum upp á steypu sem er með allt að 40% minna kolefnisspor.

Umhverfisstefnan tekur tillit til daglegrar starfsemi, við alla framleiðslu, við val á birgjum og þjónustuaðilum.

Leitast er við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá starfseminni með því að:

  • Steypuframleiðsla og starfsemi verði kolefnishlutlaus 2030.
  • Hafa ábyrga nýtingu auðlinda að leiðarljósiLeggja áherslu á stöðuga vöktun, umbætur og stýringu þátta sem geta haft neikvæð áhrif á umhverfið
  • Vinna að markvissri vöruþróun, nýsköpun og rannsóknum í eigin framleiðslu og í samstarfi við birgja og samstarfsaðila
  • Stuðla að hringrásarhugsun í framleiðslunni með því að endurnýta, gera við, endurframleiða og endurvinna auðlindir sem falla til í rekstri á ábyrgan hátt
  • Flokka úrgang sem fellur til í starfseminni, auka endurvinnslu og draga úr almennu sorpi/urðun ásamt því að minnka matarsóun
  • Víkja aldrei frá lagakröfum á sviði umhverfismála og viðhalda enn strangari kröfum þar sem við á
  • Stuðla að orkusparandi aðgerðum í starfseminni með því að vakta, mæla og leita leiða til að draga úr rafmagns- og vatnsnotkun
  • Styðja við vistvænan ferðamáta, þegar það er hægt, með því að nota ökutæki í starfseminni sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum