Beint í efni
Mínar síður

03.03.2025

Steinsteypuverðlaunin 2025

Bygging Landsbankans við Reykjastræti í Reykjavík hlaut Steinsteypuverðlaunin á Steinsteypudeginum sem haldinn var síðastliðinn föstudag. Steinsteypufélag Íslands veitir þessa árlegu viðurkenningu byggingum eða mannvirkjum þar sem steinsteypa er nýtt á frumlegan og vandaðan hátt, bæði frá tæknilegum og hönnunarlegum forsendum.

Steypan gegnir lykilhlutverki
Verðlaunin eru veitt mannvirkinu sjálfu og öllum þeim sem komu að hönnun og framkvæmd þess. Steypan frá BM Vallá er lykilþáttur í ytra og innra byrði hússins og hefur mikil áhrif á ásýnd þess, en það fóru 13.827 rúmmetrar af steypu í bygginguna. Húsið er að stórum hluta steypt með sjálfútleggjandi sjónsteypu sem gerði verkefnið sérstaklega krefjandi. Byggingin er með mikið af stórum gluggum sem kröfðust vandvirkrar steypuvinnu og mikillar nákvæmni. Steypuframleiðandi og steypuverktakinn þurftu að tryggja hámarks gæði í hverju skrefi framkvæmdarinnar.

Metnaðarfull mynstursteypa
Mikil áhersla var lögð á notkun steinsteypu í hönnun og framkvæmd byggingarinnar, bæði hvað varðar burðarvirki en ekki síður listræna útfærslu. Sérstakur metnaður var lagður í staðsteypta mynstursteypu á innri veggjum hússins, sem í bland við forsteypt stigaþrep og gróðurkassa líkir eftir berglögum í íslenskri náttúru. Hönnun og útlit byggingarinnar sækir innblástur í íslenska náttúru, þar sem gjótur, gjár, lárétt lög og lóðrétt stuðlaberg birtast í útfærslu þess. Að utan er húsið klætt blágrýti úr Hrepphólanámu í Hrunamannahreppi, en að innan endurspeglar stölluð sjónsteypa íslenskt klettalandslag. Með vandlega ígrunduðu vali á efnum og áferð tókst að skapa samhljóm á milli byggingarlistar og náttúrulegs landslags.

Hönnuðir og framkvæmdaraðilar
Landsbankinn efndi til hönnunarsamkeppni árið 2015, þar sem tillaga Nordic Office of Architecture (áður Arkþing) og C.F. Møller varð fyrir valinu. Verkfræðihönnun var í höndum EFLU verkfræðistofu, ÞG Verk sá um uppsteypu hússins með steypu frá BM Vallá, og Íslenskir aðalverktakar önnuðust fullnaðarfrágang. Umsjónaraðili verkkaupa var VSB. Framkvæmdir hófust árið 2018 og stóðu yfir til 2023, en húsið var tekið í notkun á árunum 2022 og 2023.

Frá vinstri. Hermann Hermannsson (Landsbankinn), Helgi Mar Hallgrímsson (Nordic Office of Architecture), Jonas Toft Lehmann (C. F. Möller), Þóroddur Ottesen (ÍAV), Guðrún Jónsdóttir (Efla), Gísli Valdimarsson (VSB), Þorvaldur Gissurarson (ÞG Verk) og Helgi Már Veigarsson (BM Vallá).

Mikilvægi steinsteypu
Steinsteypufélag Íslands vinnur markvisst að því að vekja athygli á mikilvægi steinsteypu í nútíma mannvirkjagerð. Með veitingu Steinsteypuverðlaunanna er lögð áhersla á gæði og fagmennsku í notkun steinsteypu, sem stuðlar að framþróun í íslenskum byggingariðnaði.

Steinsteypuverðlaunin 2025
Steinsteypuverðlaunin 2025
Dagsetning
03.03.2025
Deila