Beint í efni

SAGA | BM VALLÁ


Saga og uppruni

Snemma á 20. öld varð steinsteypa eitt mikilvægasta byggingarefnið
hér á landi en með tilkomu hennar fékkst loks hagkvæmt, hágæða byggingarefni sem að uppistöðu var búið til úr innlendum hráefnum; vatni, möl og sandi.Í upphafi var steypuframleiðslan mjög frumstæð en þegar leið á öldina batnaði tækjabúnaður, þekking jókst og framleiðslan ásamt húsagerð þróaðist úr frumstæðri notkun til nútíma byggingarlistar líkt og þekkist í dag.

Þróunarsaga steinsteypunnar á Íslandi hefur að geyma marga frumkvöðla. Einn af þeim var Benedikt Magnússon frá Vallá á Kjalarnesi en hann hóf ungur að árum að moka möl og sandi með handskóflu upp úr fjörunni á Vallá. Efnið var síðan flutt til Reykjavíkur og notað í steypu sem hrærð var á byggingarstöðum. Umsvifin jukust og eftirspurnin frá framkvæmdaraðilum sem varð til þess að BM Vallá var stofnað formlega árið 1956.

Fullvinnsla hráefna leiddi af sér meiri afköst

BM Vallá fór fljótlega að fullvinna hráefnin og framleiða steypu til afhendingar á byggingarstöðum. Þetta fyrirkomulag leiddi af sér mikið hagræði, aukna afkastagetu ásamt því að byggingarhraði jókst til muna.

Undanfarna áratugi hefur meginmarkmiðið verið að bjóða upp á traust, endingargott, hágæða byggingarefni sem hentar íslenskum aðstæðum. Fyrirtækið hefur þróað fjölda nýrra framleiðsluvara eins og hellur, garðeiningar, forsteyptar húseiningar og múrvörur, og hefur komið að uppbyggingu margra af merkustu byggingum landsins, eins og Ráðhúsi Reykjavíkur, Borgarleikhúsinu, Hörpunni, Perlunni auk fjölmargra annarra bygginga sem prýða borgina og kennimarka.

Umhverfismálin eru rauður þráður

Umhverfismál og sjálfbær nýting auðlinda er nú orðinn rauður þráður í starfseminni og er markvisst unnið að lausnum sem hafa jákvæðari umhverfisáhrif, þ.m.t. að bjóða fram vistvæna steypu með lágt kolefnisspor.

Saga fyrirtækisins er samofin sögu íslensks nútíma byggingariðnaðar. Framsýni eigenda félagsins ásamt samhentum hópi starfsfólks hefur verið styrkur félagsins í gegnum tíðina og lagt grunninn að öflugri starfsemi þess.

Tímalína í sögu BM Vallár

1946 – Sala á möl og sand úr fjörunni við Vallá hefst.
1956 – Stofnun BM Vallá og steypustöð hefur rekstur við Ártúnshöfða.
1956 - Fyrsta verkefni í mannvirkjagerð þegar Reykjalundur er steyptur.
1974 – Ný steypustöð tekin í gagnið á Ártúnshöfða.
1978 – Vikurvinnsla og útflutningur vikurs.
1984 – Hellu- og garðeiningaframleiðsla.
1984 – Framleiðsla á forsteyptum húseiningum
2002 - Framleiðsla múrefna.
2006 – Ný steypustöð tekin í notkun á Ártúnshöfða
2008 - Framleiðsla forsteyptra húseininga stórefld með kaupum á Smellinn.
2020 – Undirbúningur fyrir flutninga á allri starfsemi vegna deiliskipulagsbreytinga á Ártúnshöfða.