Beint í efni
Mínar síður

22.10.2024

Umhverfisfyrirtæki ársins 2024

BM Vallá hefur verið valið umhverfisfyrirtæki ársins af Samtökum atvinnulífsins. Viðurkenningin var veitt á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem haldinn var fyrr í dag á Hilton Nordica.

Í umsögn dómnefndar kemur meðal annars fram að mikil gróska og nýsköpun hefur átt sér stað hjá fyrirtækinu með samstarfsaðilum um vistvænni lausnir í mannvirkjagerð. Fyrirtækið vinnur í samstarfi við birgja og þjónustuaðila við að ná settu marki og hefur það nú þegar skilað vistvænna sementi inn á markað hér á landi. Nú þegar getur fyrirtækið boðið viðskiptavinum sínum upp á Berglindi, vistvænni steypu, sem er með allt að 45% minna kolefnisspor en hefðbundin steypa samanborið við steypu samkvæmt kröfu byggingarreglugerðar. Það er forgangsverkefni hjá BM Vallá að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum steypu með því að nota vistvænna sement ásamt því að draga úr notkun þess. Sementshlutinn er um 85-90% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi fyrirtækisins og er það því forgangsmál að bjóða upp á nýjar tegundir steypu sem eru með vistvænna sementi, segir ennfremur í umsögn dómnefndar.

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri þakkaði fyrir viðurkenninguna og sagði: m.a. „Við erum afar þakklát fyrir þennan heiður sem er til marks um að áherslur okkar í umhverfismálum séu eftirtektarverðar og hafi skilað raunverulegum árangri. Þennan árangur eigum við öflugu starfsfólki, viðskiptavinum og samstarfsaðilum að þakka sem deila þeirri sýn að breyta þurfi nálgun við hönnun og byggingu mannvirkja. Samnefnari þeirra áherslna er metnaður, drifkraftur og þor til að leiða fram breytingar þar sem umhverfisvænni lausnir gegna lykilhlutverki. Að vera valin umhverfisfyrirtæki ársins er mikil hvatning til að gera enn betur í þróun lausna sem hafa jákvæðari umhverfisáhrif. Við hlökkum til að halda áfram til að leggja okkar af mörkum til að byggja vistvænni framtíð.“

Þessi viðurkenning er til marks um að metnaðarfullt starf á sviði umhverfismála við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum byggingargeirans er tekið eftir og hafi skilað raunverulegum árangri. Umhverfisstefna fyrirtækisins felur m.a. í sér að taka ábyrgð á allri losun tengdri steypuframleiðslu, þar með talið sementslosun, sem telur þó ekki til loftslagsbókhalds landsins. Þar af leiðandi leggjum við áherslu á að draga úr sementsnotkun og nota vistvænna sement eins og við gerum með Berglindi, vistvænni steypu.

Umhverfisdagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni SA, SAF, Samorku, SFF, SFS, SI og SVÞ. Í ár var dagurinn helgaður leiðandi fyrirtækjum í þróun grænna lausna, með áherslu á málstofur um fjölbreytt umhverfistengd málefni innan atvinnulífsins. Mikilvægur hluti viðburðarins eru umhverfisverðlaunin, þar sem árlega eru veitt verðlaun fyrir Umhverfisfyrirtæki ársins og Umhverfisframtak ársins, sem í ár hlaut fyrirtækið Kapp. Samtökin fengu fjölda tilnefninga, sem undirstrikar að sífellt fleiri fyrirtæki leggja aukna áherslu á umhverfismál og hafa gert þau að órjúfanlegum hluta af daglegri starfsemi sinni. Lesa nánar í frétt á vef SA.

Starfsfólk fyrirtækisins er stolt og þakklátt fyrir þessa viðurkenningu og þakkar Samtökum atvinnulífsins fyrir auðsýndan heiður. Viðurkenningin er staðfesting á metnaðarfullu starfi okkar til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum byggingargeirans, sem hefur verið tekið eftir og metið. Fyrir það erum við innilega þakklát.

Dagsetning
22.10.2024
Deila