Almennir viðskiptaskilmálar | BM Vallá
1. Gildissvið skilmálanna
1.1. Skilmálar þessir gilda um öll vöru- og þjónustuviðskipti við BM Vallá ehf., kt. 450510-0680 („BM Vallá“ eða „félagið“).
1.2. Skilmálarnir, ásamt eftir atvikum samþykktu tilboði, sérskilmálum eða vöru-, verk- og þjónustusamningi fela í sér heildarsamning aðila um viðskipti. Stangist ákvæði skilmála þessara á við ákvæði sem finna má í samþykktu tilboði, sérskilmálum eða vöru-, verk- eða þjónustusamningi skulu ákvæði þeirra síðarnefndu ganga framar þessum skilmálum.
1.3. Viðskiptavinir félagsins eru bæði neytendur og aðilar í atvinnurekstri. Skilmálarnir gilda um þessa ólíku viðskiptavinahópa eftir því sem við á, en í kafla 9 er kveðið á um þau skilyrði sem eiga sérstaklega við um viðskipti félagsins við neytendur í netverslun. Skilmálar þessir skulu ekki rýra lögbundin réttindi neytenda samkvæmt viðeigandi löggjöf og regluverki. Stangist ákvæði skilmála þessara á við ákvæði neytendalöggjafarinnar ganga ákvæði laganna framar skilmálum þessum.
2. Samningur aðila, pantanir og tilboð
2.1. Samningur telst kominn á milli BM Vallá og viðskiptavinar þegar aðilar hafa undirritað vöru- eða þjónustusamning, viðskiptavinur samþykkt sérskilmála eða tilboð félagsins um vöru eða þjónustu innan gildistíma slíks tilboðs, þegar félagið hefur samþykkt pöntun viðskiptavinar, t.d. í gegnum síma eða tölvupóst. Í öllu falli telst samningur kominn á þegar viðskiptavinur hefur tekið við vöru og/eða greitt fyrir vöru eða þjónustu.
2.2. Gefi BM Vallá viðskiptavini verðtilboð með tilgreindum gildistíma er BM Vallá óbundið af samþykki sem berst eftir þann tíma. Sé gildistími ekki stafaður sérstaklega út í tilboði skal það gilda í 30 daga frá dagsetningu þess.
2.3. Sé ekki kveðið á um gildistíma samnings í sérstökum samningi aðila skal samningur aðila gilda ótímabundið þar til honum er sagt upp, sbr. gr. 12.
3. Verð, greiðslukjör, innheimta o.fl.
Allt verð sem BM Vallá gefur upp er grunnverð nema annað sé tekið fram. Verð er ýmist gefið skv. gjaldskrá á vefsíðu eða skv. tilboði. Virðisaukaskattur er innifalinn í uppgefnu verði nema annað sé sérstaklega tekið fram.
3.2. Staðgreiða skal allar vörur nema annað sé um samið, sbr. grein 4 í skilmálum þessum.
3.3. Hafi félagið samþykkt staðgreiðsluafslátt eða magnafslátt skal fjárhæð afsláttar dragast frá grunnverði. Afslættir eru ekki gefnir af tilboðsverði.
3.4. Sérpöntunarvöru þarf að staðgreiða sem nemur a.m.k. 50% af lista- eða tilboðsverði um leið og pöntun fer fram. Sérpantanir eru allar þær vörur sem eru skráðar sem sérpöntunarvara á vefsíðu bmvalla.is og/eða eru framleiddar skv. vöruflokki steyptra eininga, (s.s. bekkir, blómaker, grillskýli, sorptunnuskýli, staurar, undirstöður og vegrið) eða tilgreindar í tilboði/samningi.
3.5. Félagið áskilur sér rétt til að breyta gjaldskrá hvenær sem er og tekur ný gjaldskrá gildi við birtingu á vefsíðu.
3.6. Verð skv. verðskrá miðast við ólitaða vöru nema annað sé sérstaklega tekið fram. Litunargjaldi er bætt við grunnverð hverju sinni, eftir því sem við á.
3.7. Í tengslum við reikningsviðskipti skal reikningur greiddur í síðasta lagi á eindaga, þ.e. 14. dag næsta mánaðar eftir úttektarmánuð. Reikningar eru gefnir út með rafrænum hætti og sendir viðskiptavin í byrjun hvers mánaðar.
3.8. Hafi viðskiptavinur athugasemd við útgefinn reikning ber honum að gera athugasemd við hann fyrir eindaga, en annars telst hann samþykktur.
3.9. Sé reikningur ekki greiddur í síðasta lagi á eindaga reiknast dráttarvextir skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af útistandandi heildarskuld viðskiptavins við félagið frá fyrsta degi næsta mánaðar á eftir úttektarmánuð. Kostnaður við send innheimtubréf og innheimtuviðvörun skal greiðast af viðskiptavin og áskilur félagið sér allan rétt til að senda áfallna viðskiptskuld í innheimtu í samræmi við gildandi innheimtulög.
3.10. Hafi félagið samþykkt sérstök afsláttarkjör er félaginu heimilt að segja slíkum kjörum upp án fyrirvara eða sérstakrar tilkynningar án þess að litið sé á það sem uppsögn viðskipta. Í tilviki greiðsludráttar áskilur félagið sér jafnframt rétt til að fella niður án fyrirvara alla afslætti sem kunna að hafa verið gefnir af vöruúttektum skv. úttektarnótum og/eða reikningum, þar með talda afslætti sem veittir eru í sérstökum tilboðum og/eða samningum við viðskiptavin.
4. Reikningsviðskipti, úttektarheimildir og úttektaraðilar
4.1. Reikningsviðskipti eru háð samþykki félagsins og er forsenda slíkra viðskipta sú að viðunandi tryggingar séu til staðar fyrir reikningsúttektum og að viðskiptavinur sé ekki skráður á vanskilaskrá CreditInfo. Hvað telst viðunandi trygging er undir félaginu komið hverju sinni.
4.2. Sé viðskiptavinur lögaðili setur félagið það sem skilyrði fyrir reikningsviðskiptunum að þau séu tryggð með ábyrgð ábyrgðarmanns sem er þinglýstur eigandi fasteignar og ekki skráður á vanskilaskrá Creditinfo. Þá getur félagið krafist bankaábyrgða, veðtrygginga, eða annarra trygginga.
4.3. Viðskiptareikningar BM Vallá eru mánaðarreikningar. Úttektartímabil er hver almanaksmánuður og er gjalddagi viðskiptareiknings 1. dag næsta mánaðar á eftir úttektartímabili.
4.4. Við upphaf samþykktra reikningsviðskipta tekur félagið ákvörðun um úttektarheimildir viðskiptavinar. Úttektarheimildir eru ákvarðaðar á grundvelli mats félagsins á þeim tryggingum, sem viðskiptavinur leggur fram við upphaf viðskiptanna. Félagið áskilur sér rétt til að endurskoða það mat án sérstakrar tilkynningar eða viðvörunar. Úttektarheimildir kunna því að breytast án þess að það sé tilkynnt sérstaklega.
4.5. Viðskiptavinur skal tilkynna félaginu um þá einstaklinga (úttektaraðila) sem heimild hafa til að taka út í reikning hans og/eða óska eftir lykilorði eða leyninúmeri sem nota má til úttekta. Sé slíkt ekki gert eru allar úttektir í viðskiptareikning hjá félaginu á ábyrgð viðskiptavinar. Starfsfólk félagsins getur óskað eftir því að úttektaraðilar sýni skilríki til að sanna á sér deili við hverja úttekt.
4.6. Viðskiptavin ber að tilkynna félaginu með sannanlegum hætti ef úttektaraðili hefur ekki lengur heimild til úttekta fyrir hans hönd. Úttektaraðili telst því hafa heimild til að taka út í reikning fyrir hönd viðskiptavinar uns breytingar þar á hafa verið tilkynntar félaginu.
5. Ábyrgðarmenn
5.1. BM Vallá áskilur sér rétt til að krefjast ábyrgðar frá ábyrgðarmanni í tengslum við einstök viðskipti. Með undirritun undir ábyrgðaryfirlýsingu ábyrgjast ábyrgðarmenn skuld viðskiptavinar (aðalskuldara) sem sína eigin skuld.
5.2. Séu ábyrgðarmenn fleiri en einn ábyrgist hver um sig fulla greiðslu gagnvart félaginu. Almennar reglur íslensks réttar gilda síðan um uppgjör milli ábyrgðaraðila.
5.3. Ábyrgðarmönnum er sérstaklega bent á að kynna sér vandlega efni ábyrgðaryfirlýsinga sem þeir skrifa undir. Einnig eru ábyrgðarmenn hvattir til að kynna sér lög um ábyrgðarmenn.
5.4. Afturkalli ábyrgðarmaður ábyrgð sína, ber honum að afturkalla ábyrgðina með sannanlegum hætti. Ábyrgðin stendur þá fyrir þeirri skuld sem til staðar er þegar ábyrgðin er afturkölluð, auk vaxta og kostnaðar sem fellur á innheimtu skv. ábyrgðinni eftir að hún er afturkölluð. Greiðslum viðskiptamanns inn á skuld er ráðstafað fyrst inn á þann hluta skuldar sem ekki er tryggður með ábyrgð.
5.5. Ef fyrirtæki og lögaðilar í viðskiptum eru seld, sameinuð eða aðrar breytingar verða á rekstri þeirra, er það á ábyrgð þeirra að tilkynna BM Vallá um breyttar forsendur viðskiptanna, eftir atvikum að afturkalla þá ábyrgð sem til staðar er. BM Vallá ber ekki með neinum hætti ábyrgð á að fylgjast með slíku.
6. Söluverð og eignarréttarfyrirvarar
6.1. Félagið heldur eignarrétti að seldum vörum þar til andvirði þeirra hefur verið að fullu greitt. Viðskiptavinur veitir félaginu þannig söluveð í seldum vörum, sbr. lög nr. 75/1997 um samningsverð, og nær veðréttur félagsins til allra þeirra vara sem greindar eru í samningi/á reikningi þar til samningsverð/reikningur er að fullu greiddur ásamt vöxtum og kostnaði ef við á.
6.2. Greiðsla með viðskiptabréfum, greiðslukorti eða öðrum greiðslumiðli telst ekki fullnaðargreiðsla fyrr en full skil hafa verið gerð gagnvart BM Vallá.
6.3. Sala, framsal, veðsetning eða önnur ráðstöfun seldra vara er óheimil án undangengins samþykkis BM Vallá á meðan félagið telst eiga eignarrétt að vöru í samræmi við skilmála þessa.
7. Afhending vöru, áhættuskipti og flutningur
7.1. Áhætta vegna vöru flyst yfir til viðskiptavinar við afhendingu og telst vara afhent um leið og viðskiptavinur veitir vöru viðtöku. Ef vöru er ekki vitjað eða henni veitt viðtaka á réttum tíma og það má rekja til viðskiptavinar eða atvika sem hann varða flyst áhættan yfir á viðskiptavin þegar vara er honum til ráðstöfunar.
7.2. Vara er afhent á starfsstöðvum BM Vallá nema samið sé um heimsendingu vöru. Verð vöru miðast við afhendingu á starfsstöð að Breiðhöfða 3 í Reykjavík nema annað sé tekið fram í tilboði.
7.3. Sé vara send til viðskiptavinar eða sé óskað eftir afhendingu á annarri starfsstöð, sbr. gr. 7.2, skal viðskiptavinur greiða gjald skv. verðskrá fyrir akstur og eftir atvikum annan flutningskostnað (s.s. hífingu), nema aðilar hafi samið sérstaklega um annað. Verðskrá félagsins má finna á vefsíðu þess.
7.4. Akstursgjald skv. verðskrá miðast við afhendingu á vörum (s.s. öllum farmi) á einn stað. Aukagjald leggst á fyrir aukahífingar eða ef ekki er tryggð tafarlaus afhending. Afhending vöru, s.s. sorptunnuskýla eða annarra samsettra eininga, felur ekki í sér uppsetningu, s.s. að festa ramma, og pumpur á steyptar einingar.
7.5. BM Vallá vátryggir ekki vöru í flutningum. Óski viðskiptavinur eftir því að vara verði vátryggð í flutningum ber honum sjálfum að annast vátrygginguna.
7.6. BM Vallá ber enga ábyrgð á þeim aðstæðum sem upp kunna að koma og valda því að ekki er hægt að afferma og/eða afhenda vörur á afhendingarstað. Viðskiptavinur á enga kröfu á félagið ef afhending vöru (þ.á m. steypu) dregst af ástæðum sem félagið getur ekki stýrt. Viðskiptavinur á enga kröfu á félagið vegna tapaðra vinnustunda vegna þess að bíða þarf eftir vöru.
7.7. Sérstakt geymslugjald, á grundvelli gjaldskrár félagsins, reiknast 10 dögum eftir að viðskiptavini berst tilkynning um að vera sé tilbúin til afhendingar. Tilkynningar eru almennt sendar viðskiptavin með smáskilaboðum.
7.8. Þau vörubretti sem vara er afhent á og stórsekkir sem varan er afhent í, eftir atvikum, eru eign BM Vallá. Skilagjald vegna vörubretta og stórsekkja (pokar) er reikningsfært á viðskiptavin samkvæmt gjaldskrá félagsins við afhendingu vöru. Viðskiptavinur fær skilagjaldið endurgreitt/kreditfært, skv. því sem segir í verðskrá félagsins sé brettum og stórsekkjum skilað óskemmdum og skil verða innan árs. Félagið getur hafnað að taka við skemmdum vörubrettum eða stórsekkjum frá viðskiptavin. Sé það hins vegar gert er heimt förgunargjald skv. verðskrá, auk gjalds fyrir vinnu og aksturs ef við á.
7.9. Fyrir vinnu sem kann að vera nauðsynleg á verkstað eða á starfstöð félagsins vegna þess að ekki er tryggð tafarlaus afhending eða móttaka vöru, skal, auk annarra gjalda greiða almennt tímagjald starfsmanns samkvæmt verðskrá félagsins. Jafnframt skal greiða tímagjald fyrir bíl og önnur tæki skv. verðskrá fyrir þann tíma sem viðkomandi bíll eða tæki eru notuð til hífinga eða annarar vinnu eða á meðan viðkomandi bíll eða tæki tefst fyrir þá sök að ekki er tryggð tafarlaus afhending eða móttaka vöru. Í framangreindum tilvikum skal greitt fyrir hálftíma að lágmarki, hvort sem er fyrir mann, bíl og/eða önnur tæki.
8. Eiginleikar vöru
8.1. Um eiginleika vöru, og gæðastaðla sem ætlað er að tryggja þá eiginleika, fer skv. birtum upplýsingum á vefsíðu félagsins og byggingareglugerð sem í gildi er á hverjum tíma. Á vefsíðu félagsins eru birtar ítarlegar upplýsingar um eiginleika vöru og notkunarleiðbeiningar.
8.2. BM Vallá áskilur sér rétt til að gera breytingar á vöruframboði og framleiðslu sinni án fyrirvara. Þá ábyrgist félagið ekki að eiga allar framleiðsluvörur sínar á lager.
8.3. Litamunur eða munur á áferð getur verið sjáanlegur á öllum framleiðsluvörum BM Vallár. Getur það verið vegna þess að sama varan kann að vera framleidd í mismunandi lotum eða vegna náttúrulegra litbrigða. BM Vallá tekur ekki ábyrgð á þeim lita- eða áferðarmun er kann að verða vegna þessa.
8.4. Steinsteyptar vörur, t.d. hellur, hleðslusteinar og forsteyptar húseiningar, eru framleiddar úr náttúrulegum efnum, þ.m.t. sementi og sandi. Vegna þessa geta komið fram hvítar útfellingar á yfirborðinu. Þessar útfellingar eru náttúrulegar og hafa engin skaðleg áhrif á gæði eða endingartíma vörunnar. Þær fela því ekki í sér grundvöll fyrir kröfum um afslátt, skaðabætur eða önnur vanefndarúrræði.
9. Viðskipti í netverslun BM Vallár
9.1. Um viðskipti viðskiptavina sem eru neytendur í netverslun félagsins gilda sérstakar reglur í samræmi við lög nr. 16/2016 um neytendasamninga. Ákvæði þessara 9. gr. á við um slík viðskipti neytenda við félagið auk annarra ákvæði skilmála þessara, en stangist ákvæði þessarar 9. gr. á við önnur ákvæði skilmálana skulu ákvæði þessarar 9. gr. ganga framar.
9.2. Neytandi skal hafa rétt til að falla frá kaupum sem fara fram í netverslun, eða með öðrum fjarsölusamningi, í allt að 14 daga eftir að neytandi fær vöruna afhenta sé ekki um sérpantaða vöru að ræða. Þá fæst þeim vörum sem listaðar eru upp í gr. 10.2 ekki skilað.
9.3. Til þess að nýta rétt sinn til að falla frá samningi skal neytandi tilkynna félaginu um ákvörðun sína með ótvíræðri yfirlýsingu. Til að fresturinn teljist virtur er nægjanlegt að neytandi sendi tilkynningu um að hann neyti réttar síns til að falla frá samningi áður en fresturinn rennur út.
9.4. Falli neytandi frá samningi mun félagið endurgreiða allar greiðslur sem félagið hefur fengið, að undanteknum afhendingarkostnaði hafi neytandi valið heimsendingu eða afhendingu á tilgreindar starfsstöðvar félagsins, sbr. gr. 7.3. í skilmálum þessum og sértækum kostnaði sem fallið hefur til vegna athafna neytanda, sbr. gr. 7.4-7.9 í skilmálum þessum.
9.5. Ef vara sem pöntuð hefur verið í netverslun reynist ekki til á lager, er viðskiptavinur upplýstur um það og boðið að fá vöruna þegar hún verður fáanleg að nýju. Ef fyrirséð er að pöntuð vara verði ekki til á lager innan 30 daga mun félagið endurgreiða vöru að fullu hafi greiðsla farið fram.
10. Vöruskil
10.1. Vöru fæst einungis skilað gegn framvísun reiknings og þarf varan að vera í upprunalegu
ásigkomulagi án sjáanlegra skemmda, ónotuð og í söluhæfu ástandi.
10.2. Þrátt fyrir ákvæði 10.1, fæst eftirfarandi vörum ekki skilað:
10.2.1. Vöru sem keypt er á sérstökum kjörum vegna ágalla.
10.2.2. Sérpöntunarvöru.
10.2.3. Tromluðum steinum sem afhentir eru í stórsekkjum (þ.m.t. Óðalssteinn, Torgsteinn, Óðalskantsteinn og Herragarðssteinn).
10.2.4. Vara sem komin er yfir fyrningarfrest eða svo nærri slíkum fresti að óraunhæft er að hún seljist innan fyrningarfrests.
10.2.5. Skemmd vara, afsagi og plasti (öðru en því sem tilheyrir "Grænum verktökum").
10.2.6. Múrgrunni, lakki málningu, kítti, frauði og hvers konar tilbúnum múrefnum sem ekki þarf að blanda með vökva.
10.2.7. Efnum eða efnablöndur í vökvaformi.
10.2.8. Múrvörum í áteknum umbúðum.
10.2.9. Möl og sandi sem afgreidd eru í lausu eða í stórsekkjum.
10.2.10. Vörur sem eftir eðli sínu eru sérframleiddar samkvæmt beiðni, t.d. steypa og flot.
10.3. Skilafrestur á smávörum, verkfærum, vélum og varahlutum er 14 dagar. Skilafrestur á hellum og steinum eru 60 dagar nema um annað sé samið skriflega og skal reikningur fylgja.
10.4. Vöru fæst aðeins skilað í vöruafgreiðslu BM Vallár sé ekki um annað samið.
10.5. Hafi hellur og steinar verið afhent á bretti á þarf að skila þeim tilbaka eins röðuðum á bretti og voru við afhendingu. Kerfissteinum fæst eingöngu skilað í heilum brettaröðum, þ.e. heilum hæðum á bretti. Til kerfissteina teljast m.a. Fornsteinn, Óðalssteinn, Rómarsteinn og Torgsteinn. Sé búið að taka ákveðnar stærðir steina úr upphaflegu steinasetti þá fæst því steinasetti ekki skilað.
10.6. BM Vallá áskilur sér rétt til að taka 20% afföll af upphaflegu verði þegar vörum er skilað.
10.7. Ef afgangsvara eða tóm vörubretti eru sótt til viðskiptavinar innheimtir félagið sérstakt gjald skv. verðskrá félagsins. Þá er tekið sértakt gjald fyrir vinnu starfsfólks félagsins, samkvæmt gjaldskrá, sem leiða má til þess að frágangur vöru sem skilað er, er ófullnægjandi, þ.a.m. ekki í upphaflegum umbúðum, ófullnægjandi ástandi sem og vegna vinnu vegna tafa í tengslum við skil.
10.8. Afgangsvara er einungis tekin til baka með bílum félagsins sé gengið frá henni á bretti sem aðgengileg eru fyrir þá á einum stað. Sé hún ekki tilbúin til flutnings skv. þessu er félaginu heimilt að hafna því að taka hana til baka en reikningsfæra og akstursgjald skv. verðskrá félagsins eins og varan hafi verið sótt.
10.9. Viðskiptavin ber að kanna hvort kreditreikningur og/eða móttökukvittun sé í samræmi við vöruskil og ber hann ábyrgð á því hafi hann tekið við kreditreikningi eða móttökukvittun sem er ekki rétt. Getur hann ekki krafist leiðréttinga vegna þessa.
11. Ábyrgð á vöru og takmörkun ábyrgðar
11.1. Ábyrgð BM Vallá á göllum í framleiðsluvörum er takmörkuð við það að félagið afhendir nýja vöru frá verksmiðju í stað þeirrar sem verður að skipta um. Ábyrgð félagsins nemur þó aldrei hærri fjárhæð en viðskiptamaður greiddi fyrir vöruna í upphafi.
11.2. Félagið ber í engum tilvikum ábyrgð á rekstrartapi viðskiptavinar eða öðru afleiddu eða óbeinu tjóni hans, þ.m.t. glötuðum ágóða eða ráðgerðum sparnað, hvort sem tjónið er rakið til galla, skemmda eða eyðileggingar á hinu keypta eða til annarra ástæðna.
11.3. Viðskiptavinur getur ekki borið neitt það fyrir sig sem galla sem hann vissi eða mátti vita um þegar kaupin voru gerð. Viðskiptavinur ber ábyrgð á því að skoða vöru við móttöku, þ.e. áður en hún er notuð eða skeytt við fasteign, þ.m.t. hellur lagðar og að gallar á vöru séu tilkynntir umsvifalaust til félagsins. Viðskiptavinur á engar kröfur á hendur félaginu vegna eiginleika hins keypta sem hann varð var við, mátti verða var við eða mátti sjá við móttöku eða notkun, af leiðbeiningum, lýsingum eða öðrum upplýsingum er fylgdu hinu keypta. Framangreint gildir einnig hafi viðskiptavinur fyrir kaup rannsakað sýnishorn af hlutnum eða látið það hjá líða án gildrar ástæðu og gallinn varðar eiginleika sem sjá mátti á sýnishorninu.
11.4. Við mat á því hvort vara sé gölluð skal miða við það tímamark þegar áhættan af vöru flyst yfir til viðskiptavinar sbr. gr. 7.1.
11.5. Ef viðskiptavinur leggur ekki fram kvörtun innan árs frá þeim degi er vara er afhent getur hann ekki borið galla fyrir sig síðar.
11.6. Sé um neytendakaup að ræða skal viðskiptavinur leggja fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi er hann veitti vöru viðtöku eða fimm ára sé söluhlutur byggingarefni sem ætlað er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti. Um mat á eiginlegum söluhlutar og tímamark galla fer að öðru leyti eftir ákvæðum IV. kafla laga nr. 48/2003 um neytendakaup, eftir því sem við á.
11.7. Ábyrgð félagsins er miðuð við að viðskiptavinur hafi notað vöruna í samræmi við leiðbeiningar og venjulega eða eðlilega notkun. Hafi félagið gefið út lýsingu á notkun vörunnar, handbækur eða aðrar leiðbeiningar um notkun vörunnar er ábyrgð félagsins háð því að notkun vöru hafi verið í samræmi við það. Stafi tjón af rangri meðferð, misnotkun, slysni eða öðru sem rekja má til viðskiptavinar, þ.m.t. tilraun til viðgerðar eða átt hefur verið við vöru að öðru leyti, ber félagið þannig enga ábyrgð.
11.8. Viðskiptamenn félagsins eiga engan rétt til skaðabóta, þegar vanefndir orsakast af óviðráðanlegum atvikum (Force Majeure) svo sem vinnudeilum, styrjöldum, uppreisnum, náttúruhamförum, aðgerðum stjórnvalda á sviði gjaldeyris- og viðskiptamála, viðskiptabönnum, hafnbönnum, almennum samgönguhindrunum, orkuskorti og óviðráðanlegum atvikum í samskiptum við undirverktaka.
11.9. Framvísa skal sölureikningi til staðfestingar á ábyrgð vegna vöru.
12. Uppsögn
12.1 Sé ekki kveðið á um uppsagnarfrest í samningi félagsins við viðskiptavin eða sérskilmálum skal uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir og skal uppsögn taka gildi um mánaðarmót.
12.2. Félagið getur hvenær sem er, fyrirvara- og bótalaust, sagt upp samningi við viðskiptavin vegna brots hans á samningsskyldum nema annað leiði ótvírætt af skilmálum þessum, sérskilmálum, samningum eða lögum. Eigi félagið viðskipti við viðskiptavin á grundvelli fleiri samninga en eins leiða brot hans á einum samningi til þess að félagið getur sagt upp öllum samningum sínum við viðkomandi viðskiptavin.
13. Annað
13.1. Öll vinnsla félagsins á persónuupplýsingum viðskiptavina skal vera í samræmi við gildandi persónuverndarlög. Nánar er fjallað um vinnslu félagsins á persónuupplýsingum viðskiptavina í persónuverndarstefnu félagsins sem aðgengileg er á vefsíðu þess.
13.2. Framsal á umsömdum réttindum til þriðja aðila er óheimilt og öðlast ekki gildi nema kveðið sé sérstaklega á um heimild til slíks framsals í samningi eða sérskilmálum.
13.3. BM Vallá áskilur sér rétt til að ráða undirverktaka til að inna af hendi allar þær skyldur sem félagið hefur tekið að sér í tengslum við selda vöru og/eða þjónustu. Undirverktakar starfa á ábyrgð félagsins gagnvart viðskiptavinum þess. Flutningsaðilar vöru sem félagið útvegar fyrir viðskiptavini eru ekki undirverktakar félagsins. Viðskiptavinir teljast í beinu samningssambandi við slíka flutningsaðila og greiða þeim fyrir flutninginn.
13.4. Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi mál vegna þeirra skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
13.5. BM Vallá áskilur sér rétt til að breyta skilmálunum og taka uppfærðir skilmálar gildi við birtingu. Sé um breytingar að ræða sem hafa áhrif á skyldur viðskiptavina skulu breytingarnar taka gildi 30 dögum eftir að tilkynning er send viðskiptavin um breytingar.