Beint í efni

09.01.2023

Forsteyptar húseiningar í nýtt fjölbýlishús

Fulltrúar BM Vallár og Úlfarsár ehf skrifuðu undir samning um kaup á forsteyptum húseiningum, steypu og uppsetningu á 60 íbúða fjölbýlishúsi við Kleppsmýrarveg 6. Um er að ræða eitt stærsta einstaka verkefni á sviði húseininga sem BM Vallá hefur komið að. Húsið verður sex hæðir með bílakjallara og mikið lagt upp úr vandaðri innivist við hönnun hússins og val á efni. Steypan frá BM Vallá sem er notuð í húseiningarnar er vistvænni og verður því byggingin með áætluðu 20% minna kolefnisspori heldur en sambærileg steypa á markaði.

Öflug reynsla og þekking

Skammur byggingartími, viðhaldsfríar utanhússklæðningar og getan til að mæta flóknum hönnunarlegum forsendum eru á meðal þess ávinnings að velja forsteyptar húseiningar frá BM Vallá í byggingarframkvæmdir. BM Vallá hefur umfangsmikla reynslu í hönnun, uppsetningu og lausnum fyrir forsteypt hús og mun sú þekking nýtast í verkefninu með Úlfarsá enda mikið kapp lagt á gæði, traust og afhendingartíma.

Umfangsmikil endurbygging

Hverfið Vogabyggð við Elliðarárvog hefur tekið stakkaskiptum síðustu mánuði en þar fer fram ein umfangsmesta endurbygging í sögu Reykjavíkur. Þar kemur til með að rísa íbúðabyggð fyrir allt að 1.200-1.500 íbúðir ásamt atvinnuhúsnæði. Skipulag gerir ráð fyrir að byggðin verði til fyrirmyndar varðandi vistvænan byggingarmáta, vönduð mannvirki og umhverfisvænni samgöngumáta.

Það er mikil tilhlökkun hjá starfsfólki BM Vallá að starfa með Úlfarsá í verkefninu en gert er ráð fyrir því að húsið rísi á vormánuðum 2024. Verktími samnings er 16 mánuðir.

Dagsetning
09.01.2023
Deila