28.07.2025
Hringrásarhús BM Vallár rís
BM Vallá leggur sig fram um að vera leiðandi í vistvænni lausnum og hringrásarhugsun í byggingariðnaðinum. Um þessar mundir eru framkvæmdir í fullum gangi við byggingu nýs hringrásarhúss fyrirtækisins að Bíldshöfða 7 sem kemur til með að hýsa söluskrifstofur, múr- og fagverslun ásamt lager fyrirtækisins.
Hringrásarhúsið er reist í samræmi við umhverfisáherslur fyrirtækisins þar sem vistvænni hugsun í hönnun, tæknilausnir og sveigjanleiki haldast í hendur. Húsið er steypt úr Smellinn húseiningum og sérstaklega hannað með það í huga að hægt sé að taka það niður og flytja á framtíðarstaðsetningu þegar hún liggur fyrir. Þannig er sóun minnkuð, kolefnisspor framkvæmda lágmarkað og auðlindir nýttar á skynsaman hátt.
Byggingaraðferðin nýtir forsteyptar einingar frá BM Vallá sem gera bæði flutning og endurnýtingu mögulega án verulegs efnis- eða orkutaps. Nýlega voru heilsteyptar gólfeiningar hífðar upp fyrir efri hæð hússins. Það er ánægjulegt að fylgjast með þessu færanlega forsteypta húsi rísa sérstaklega í ljósi þess að fyrstu hugmyndir og þróun að þessari aðferðarfræði hófust fyrir nær þremur árum.

Hringrásarhús BM Vallár er lifandi dæmi um hvernig hægt er að hugsa byggingarferlið upp á nýtt með sveigjanleika, endurnýtingu og sjálfbærni í forgrunni. Með þessari nálgun vill BM Vallá leiða þróunina í átt að vistvænni framtíð og sýna í verki hvernig nýsköpun og ábyrg umgengni við náttúruna geta farið saman.
Áætlanir gera ráð fyrir að hringrásarhúsið verði tekið í notkun haustið 2025 og mun þá öll starfsemi að Breiðhöfða 3 flytjast á nýjan stað að Bíldshöfða 7.