21.10.2024
Mikilvægi samstarfs við háskóla
BM Vallá leggur áherslu á samvinnu og tengsl við háskólasamfélagið með áherslu á rannsóknir og þróun vistvænna lausna í byggingariðnaði. Um þessar mundir vinnur Ester María, nemi í byggingatæknifræði við Háskólann í Reykjavík, að lokaverkefni sínu í samstarfi við BM Vallá og Vegagerðina. Þátttaka í verkefninu er hluti af þeirri viðleitni BM Vallár að stuðla að aukinni sjálfbærni og betri nýtingu auðlinda í mannvirkjagerð.
Ester María kom nýverið á rannsóknarstofu fyrirtækisins til að steypa prófstykki fyrir rannsóknir sínar, sem snúast um að prófa tengingar milli forsteyptra veggeininga í landstöpla brúa. Markmið verkefnisins er að hraða framkvæmdum á verkstað og stuðla þannig að aukinni skilvirkni. Prófanir á veggeiningunum fara fram um mánaðamótin október/nóvember, og er vonast til að niðurstöðurnar leiði til frekari framfara í hönnun og framkvæmd byggingarverkefna.
„Samstarf okkar við háskólasamfélagið er mikilvægur þáttur í að þróa nýjar og vistvænni aðferðir í byggingariðnaði. Verkefni eins og þetta, þar sem vísindarannsóknir eru settar í framkvæmd með raunverulegum lausnum, undirstrika mikilvægi nýsköpunar og samvinnu við háskólana.“ segir Sirrý Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfis- og gæðasviðs.



