Beint í efni
Mínar síður

12.03.2025

Sjálfbært og metnaðarfullt húsnæði

Við Háteigsveg 59 hafa Félagsbústaðir tekið í notkun nýjan þriggja hæða búsetukjarna með átta íbúðum. Byggingin, sem er um 500 fermetrar, er skýrt dæmi um metnað, nýsköpun og hringrásarhugsun í byggingariðnaði, þar sem vistvæn efni og skapandi endurnýting voru í forgrunni. Markmiðið var að skapa bjartar og vel skipulagðar íbúðir á sama tíma og dregið var úr kolefnisspori með markvissum aðferðum og nýtingu byggingarefna sem annars hefðu farið til spillis.

Hellur endurnýttar í steypuna

Sérstök áhersla var lögð á að draga úr kolefnisspori byggingarinnar, meðal annars með notkun Berglindar, vistvænni steypu frá BM Vallá. Gengið var enn lengra með endurnýtingu í steypugerðinni og voru afgangshellur malaðar niður og settar í steypuna. Með þessu var hægt að minnka kolefnisspor steypunnar um 39% samanborið við hefðbundna steypu.

„Það er gríðarlega mikilvægt að byggingariðnaðurinn þróist í átt að umhverfisvænni lausnum. Með því að nýta steypu sem hefur minni kolefnisáhrif er hægt að stuðla að jákvæðari umhverfislausnum án þess að fórna gæðum eða endingu,“ segir Sirrý Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfis- og gæðamála, en hún var hluti af teyminu sem kom að verkefninu frá upphafi.

Sirrý, Arnhildur og Eyþór.
Frá vinstri. Sirrý Ósk Bjarnadóttir, Arnhildur Pálmadóttir og Eyþór Friðriksson hafa unnið að hönnun Félagsbústaða síðustu ár.

Endurnýting byggingarefna og vistvænar lausnir

Til að lágmarka umhverfisáhrif byggingarinnar var mörgum skapandi lausnum beitt við val á byggingarefnum. Utan á húsið var til dæmis notast við klæðningu úr umbúðatimbri sem venjulega er hent hjá Húsasmiðjunni, auk þess sem afgangstimbur frá BYKO var endurnýtt.

Viðarklæðningin var meðhöndluð með aldagamalli japanskri aðferð, Shou Sugi Ban, sem felst í því að brenna yfirborð viðarins til að mynda hlífðarlag. Þessi aðferð gerir viðinn endingarbetri án þess að nota rotvarnarefni og dregur úr viðhaldskostnaði.

Viðarklæðningin var meðhöndluð með aldagamalli japanskri aðferð.

Innanhússhönnun með sjálfbærni í fyrirrúmi

Íbúðirnar í húsinu eru bjartar, rúmgóðar og vel skipulagðar með áhugaverðum útfærslum. Við útskotsglugga í öllum íbúðum og við inngang í tveimur þeirra eru setbekkir úr leðri. Leðrið er nýtt á sem bestan hátt, þar sem afgangar og afskurður eru notaðir, sem skilar því að hver seta er einstök.

Í stað hefðbundins parkets voru gólfin lögð með endurunnu gegnheilu íþróttagólfi sem kom meðal annars frá íþróttahúsum í Danmörku. Flísar í sameign byggingarinnar eru íslenskt líparít og blágrýti sem var afskurður frá framkvæmdum við viðbyggingu Alþingis.

Fleiri skapandi lausnir til að lágmarka sóun

Ýmis fleiri byggingarefni voru endurnýtt í framkvæmdinni.

  • Klæðning á stofuvegg er úr notuðum spónaplötum sem komu skemmdar til Húsasmiðjunnar.
  • Stigahandrið í sameign var klætt með afgangs álplötum og afskurði frá öðrum framkvæmdum.
  • Flísar á baðgólfum voru afgangsflísar úr öðrum verkefnum sem annars hefðu verið hent.
  • Gluggar í sameign eru endurnýttir gluggar sem voru teknir úr gömlum byggingum.
  • Geymsluhurðir voru allar endurnýttar hurðir sem fengust með söfnun frá öðrum byggingarverkefnum.

Háteitsvegur 59, félagsbústaðir með 39% minna kolefnisspori steypu.
Gluggarnir voru endurnýttir og koma úr gömlum byggingum.

Kolefnisspor 53% minna

Byggingin við Háteigsveg 59 er skýrt dæmi um hvernig nýsköpun og sjálfbærni geta farið saman í byggingariðnaði. Með því að nota vistvænni steypu eins og Berglindi frá BM Vallá og leggja áherslu á endurnýtingu efna tókst að draga verulega úr kolefnisspori framkvæmdarinnar. Kolefnisspor byggingarinnar miðað við núverandi viðmiðunarhús er 53% minna. Mikil áhersla var lögð á að verkefnið væri innan sama kostnaðarramma og sambærileg verkefni auk þess sem gerðar voru kröfur til heilnæmis þeirra efna sem notuð voru í verkefninu.

Reynsla sem nýtist við framtíðaruppbyggingu

Byggingin við Háteigsveg er mikilvægt fordæmi fyrir framtíðaruppbyggingu þar sem vistvænar lausnir gegna sífellt stærra hlutverki. Hún sýnir einnig hvernig samstarf milli opinberra aðila og einkafyrirtækja getur stuðlað að nýsköpun í sjálfbærri mannvirkjagerð. Með slíkum aðferðum er unnið að markmiðum Íslands um minni losun gróðurhúsalofttegunda og stuðlað að sjálfbærri þróun til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.

Að byggingu og hönnun Félagsbústaða komu:

  • Hönnuðir eru sap arkitektar/Lendager Ísland – Arnhildur Pálmadóttir
  • Burðarþolshönnun: Hanna verkfræðistofa
  • Lagnahönnun: Varmboði
  • Raflagnahönnun: Verkhönnun
  • Brunahönnun: Örugg verkfræðistofa
  • Umsjón, byggingarstjórn og eftirlit: VSB verkfræðistofa
  • Aðalverktaki: Vinahús
  • Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Aðrir samstarfsaðilar: BM Vallá, Egill Árnason, Gluggagerðin, Grafa og grjót, Húsasmiðjan, HMS, Zenus bólstrun, Húsform.

Háteitsvegur 59, félagsbústaðir með 39% minna kolefnisspori steypu.
Háteigsvegur 59, félagsbústaðir með 39% minna kolefnisspori steypu.
Dagsetning
12.03.2025
Deila