Berglind er vistvænni steypa 

BM Vallá kynnir með stolti Berglindi – vistvænni steypu, fyrir metnaðarfulla hönnuði og framkvæmdaraðila á byggingarmarkaði sem vilja umhverfisvænni lausnir. Hægt að fá Berglindi með allt að 40% minna kolefnisspori heldur en sambærileg steypa og unnið er stöðugt að því að bjóða fram enn vistvænni steypu með það að markmiði að ná fram kolefnishlutleysi 2030.

Núna fæst Berglind í þremur flokkum með mismiklum kolefnissparnaði:

Berglind 20 | Kolefnissparnaður er a.m.k. 20% samanborið við hefðbundna steypu*
Berglind 30 | Kolefnissparnaður er frá 20-30% samanborið við hefðbundna steypu*
Berglind 40 | Kolefnisparnaður er frá 31-40% samanborið við hefðbunda steypu*

Skoða steypugerðir

*Samanborið við steypu samkvæmt kröfu byggingarreglugerðar. 

Byggjum til framtíðar með vistvænni steypu

Viðmið og áherslur byggingariðnaðarins eru að breytast og hafa bæði fyrirtæki og hið opinbera skilgreint metnaðarfull markmið um vistvænni mannvirkjagerð. Þá eru gerðar kröfur um að mannvirki nútímans og framtíðarinnar séu í senn endingargóð, heilnæm og umhverfisvænni með tilheyrandi áherslum á hringrásarlausnir og jafnvel umhverfisvottanir. Útgáfa nýrrar byggingarreglugerðar styður við þessa vegferð með endurskilgreiningu á lágmarks bindiefnis í öllum styrkleikaflokkum steypu.

Þessum breyttu áherslum höfum við hjá BM Vallá tekið fagnandi og unnið að þróun lausna fyrir byggingariðnaðinn sem hafa jákvæðari umhverfisáhrif. Berglind endurspeglar ný viðmið, bæði hvað varðar áreitisflokka steypu og lægra kolefnisspor. Enda er mikill samhljómur í vistvænni steypu og því yfirlýsta markmiði BM Vallár um að öll steypuframleiðsla og starfsemi verði kolefnishlutlaus árið 2030.

Sement losar mesta kolefnið

Á heimsvísu er áætlað að byggingariðnaðurinn sé ábyrgur fyrir um 40% af heildarkolefnislosun. Steinsteypa er búin til úr grjóti, sandi, vatni og sementi, og ber sementshlutinn ábyrgð á 90% kolefnislosunar á steinsteypunni, en almennt er talið að 8% af allri kolefnislosun heimsins megi rekja til sementsframleiðslu. Það er því borðleggjandi að til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum steypunnar er heppilegast að skoða fyrst sementshlutann.

Byggingarefni á Íslandi eru innflutt að stórum hluta, þar á meðal allt sement, sem þýðir að kolefnislosun við framleiðslu þeirra telur ekki í loftlagsbókhald okkar Íslendinga. Að mati BM Vallá skýtur það þó skökku við og er það því yfirlýst stefna okkar að taka ábyrgð á allri losun sem hlýst af steinsteypu, þar með talið vegna sementsnotkunar, enda eru loftslagsmálin samábyrgð allra jarðarbúa. Af þeim sökum miða áherslur okkar að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sements.

Eitt mikilvægasta byggingarefnið

Steinsteypa er eitt mikilvægasta og mest notaða byggingarefni heimsins. Nútímasamfélög með samgöngubótum, innviðum, mannvirkjum og byggingum væru ekki í þeirri mynd sem þau eru í dag ef ekki væri til staðar fyrir steinsteypuna og þeirra eiginleika sem hún býr yfir.

Hér á landi hentar steypa sérstaklega vel þar sem byggingar og mannvirki úr steypu þola íslenskt veðurfar, hafa langan líftíma og lágmarks viðhaldsþörf. Steinsteypa er aðalbyggingarefni um 70% allra bygginga á Íslandi og samkvæmt lífsferilsgreiningu á steyptu viðmiðunarhúsi ber steypa ábyrgð á 2/3 hluta af kolefnisspori byggingarefna hússins.

Með Berglindi -vistvænni steypu frá BM Vallá er hvergi slegið af kröfum um gæði eða endingu heldur er virðisaukinn í formi byggingarvöru sem hefur jákvæðari umhverfisáhrif.

Sjálfbærni í mannvirkjagerð nauðsynleg

Byggingariðnaðurinn þarf að stefna að sjálfbærni og hringrásarhugsun til að draga úr kolefnislosun og úrgangi ásamt því að bæta auðlindanýtingu. Þar af leiðandi verður að byrja strax á forstigshönnun að velja hráefni, byggingaraðferðir og efni til að draga úr kolefnislosun.

Öll mannvirki losa kolefni yfir lífsferil sinn, en lífsferli bygginga er skipt niður í nokkra lífsferilsfasa. Lífsferilsgreining (e. life cycle assessment, LCA) er aðferðafræði til að meta kolefnislosun frá öllum fösum lífsferils bygginga, annarra mannvirkja og innviða. Hverjum fasa fylgir kolefnislosun, iðulega gefin upp sem kg CO2íg á einhverja einingu, t.d. m2.

Berglind stefnir á kolefnishlutleysi

Nú þegar er hægt að fá Berglindi sem er með 40% lægra kolefnisspor heldur en hefðbundin steypa. Við vinnum við að því hörðum höndum að því að gera Berglindi enn vistvænni með nýjum steyputegundum og mótvægisaðgerðum, enda er markmiðið að Berglind verði kolefnishlutlaus árið 2030.

Nú þegar höfum við kortlagt aðgerðir sem nema um 80% af takmarkinu um kolefnishlutleysi, og vinnum markvisst að því að finna lausnir á því sem upp á vantar með margvíslegum leiðum, nýsköpun, rannsóknum og þróun.

Heyrðu í okkur til að fá upplýsingar um Berglindi fyrir þitt mannvirki svo þú getir byggt til framtíðar með vistvænni steypu.

Hafðu samband

Algengar spurningar og svör

Er hægt að fá kolefnishlutlausa steypu?

Það er ekki hægt að fá kolefnishlutlausa steypu hjá BM Vallá í dag, árið 2023, en við stefnum á að slíkt verði á boðstólnum árið 2030. Það er hægt að fá allt að 40% vistvænni steypu í dag og mögulega er hægt að gera sértækar aðgerðir til að ná enn meiri umhverfisárangri. Slíkt þarf þó að gera í samvinnu við hönnuði og okkur.

Hvert er kolefnisspor steinsteyptra bygginga á Íslandi

Lífsferilsgreining hefur verið gerð á svokölluðu Viðmiðunarhúsi (e. basis house) sem er byggt í samræmi við íslenskar aðstæður. Greiningin setur ákveðið viðmið fyrir íslenskar nýbyggingar og niðurstöðurnar munu nýtast vel til að lýsa byggingarhefðum og/eða -venjum eins og þær eru í dag. Skýrslan um Viðmiðunarhúsið hefur ekki verið formlega birt (þegar þetta er ritað janúar 2023) en vænta má birtra niðurstaðna innan skamms (Nýsköpunarmiðstöð Íslands, óútgefin). Samkvæmt niðurstöðum lífsferilsgreiningar á Viðmiðunarhúsinu (sem er steypt) stendur steypa fyrir tæplega 2/3 hluta af kolefnisspori byggingarefna hússins.

Hvernig er sement búið til?

Algengasta sementstegundin er svokallað Portland sement en það er búið til úr kalksteini, leir og ýmsum öðrum hráefnum. Hráefnin þurfa að innihalda kalsíum (Ca), kísil (Si), járn (Fe) og ál (Al) í réttum hlutföllum. Þegar hráefnum hefur verið blandað rétt saman eru þau bökuð í snúningsofni þar sem hitinn verður allt að 1500°C. Í þessum bakstri verður til svokallað sementsgjall (e:clinker) sem er manngert steinefni. Sementsgjallið er svo malað og gifsi bætt við, ca. 3-4%. Árleg sementsframleiðsla heimsins er um það bil 4.000 milljón tonn, þar af eru framleidd um 180 milljón tonn af sementi í Evrópu.

Framleiðsla sementsgjalls er orkufrek og er almennt áætlað að við framleiðslu á einu kílói losar u.þ.b. 900 grömm af CO2út í andrúmsloftið. Hins vegar ef endurnýjanleg, vistvæn orka, er notuð er hægt að draga úr losun og áætlað að við framleiðslu á einu kíló af gjalli losi 700 grömm af CO2. Ef leitað er síðan leiða til að draga úr magni sementsgjalls í steypu er hægt að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Og að því stefnir BM Vallá ótrauð áfram með því að bjóða fram vistvæna steypu!